152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[21:43]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hjó eftir því að hún nefndi þær miklu reglugerðarheimildir sem þessi ríkisstjórn virðist hafa veitt sér til að útfæra lög eftir sínu höfði. Og af því hér var talað um netöryggi og hv. þingmaður nefndi netöryggi og þær heimildir sem virðast vera til staðar hvað þann þátt varðar þá er ekkert langt síðan við hlustuðum á fyrrverandi forseta Bandaríkjanna tala um að banna Kínverjum að selja tölvubúnað og bar fyrir sig að þetta væri njósnabúnaður fyrir Kínverja og væri að valda þessu tiltekna fyrirtæki alveg stórkostlegum skaða. Þegar maður sér og heyrir svona hluti og áttar sig á því um hvað er verið að tala þarna þá spyr maður sig hversu langt stjórnvöld geta gengið til að misnota hugsanlega aðstöðu sína hvað þetta varðar og tryggja einhverjum sérstökum aðilum umframaðgang fram yfir þá sem eru kannski á markaði að selja sambærilega eða samsvarandi vöru. Ég myndi vilja fá hv. þingmann til að tjá sig aðeins um þetta því mér fannst á henni að heyra að hún hræddist þetta.