152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[21:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Vegna þess að hv. þingmaður kom inn á 72. gr., sem við vorum einmitt að ræða áðan, fór ég að blaða í umsögnum og fann umsögn þar sem er sérstaklega hvatt til þessarar breytingar og raunar hvatt til þess að gengið verði enn lengra í að lengja hámarksbinditíma samninga. Sú umsögn er frá hagsmunaaðilanum Vodafone (Sýn hf.) og í henni segir, með leyfi forseta:

„Stöðug tilfærsla viðskiptavina hefur mikil neikvæð fjárhagsleg áhrif á fjarskiptafélögin öll og markaðinn í heild sinni. Ætla má að verðlagning félaganna sé hærri til þess að geta staðið straum af þessum kostnaði. Á mörkuðum erlendis hafa fjarskiptafélög heimildir til þess að gera fjölbreyttari samninga við neytendur og þar með ná niður verðum, bæta þjónustu og tryggja fjárhagslegan stöðugleika félaganna.“

Þarna er þetta rökstutt út frá hagsmunum fyrirtækjanna en um leið út frá afleiddum áhrifum á hagsmuni neytenda. Ég held að það sé erfitt fyrir okkur að taka afstöðu til þess hvort þetta eru réttmæt sjónarmið eða hvort þetta eru sannfærandi rök eða ekki. Ég held að kannski þyrfti að rýna það aðeins betur. En ég fæ að beina fyrirspurn til hv. þingmanns: Hvers vegna heldur hv. þingmaður að þessi breyting sé gerð? Er það einmitt vegna svona sjónarmiða sem hafa komið frá hagsmunaaðilum og ef svo er, hvers vegna er það ekki bara tekið skýrt fram í greinargerð frumvarpsins? Af hverju er verið að fara í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut?