152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:37]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég fylgdist með þeirri umræðu sem átti sér stað eftir að Míla var seld. Kannski hefði þetta frumvarp þurft að hafa verið tilbúið þegar Míla var seld með þeim breytingum sem við erum að nefna hér og myndum vilja sjá gerðar á þessu frumvarpi. En allt á þetta að snúast um að auka neytendavernd. Það er það sem skiptir höfuðmáli í öllu sem við gerum. Ég hafði t.d. engar skoðanir á því hvort eigandi Mílu héti Jón eða John, það breytti mig í sjálfu sér engu hvort erlendir aðilar eða innlendir aðilar ættu þetta. Það sem truflaði mig á sínum tíma var að sjá Símann seldan og að þeir peningar sem áttu að vera nýttir í Landsbankann fuðruðu upp einhverra hluta vegna og einhverjir aðilar tóku sér það bessaleyfi að slátra þeim peningum í hruninu. En það sem þarf auðvitað alltaf að tryggja eru almannahagsmunir, það þarf að tryggja eignir almennings á hvaða tímapunkti sem er og það þarf að tryggja að fólk sé varið fyrir misvitrum einstaklingum sem ætla sér að græða á því eða kúga það. Mér finnst að við þurfum að horfa fyrst og fremst á það að þessi neytendavernd sé til staðar og já, í flestum tilfellum hefur hún verið bætt með tilskipunum frá Evrópusambandinu.