152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, það er í rauninni tvíþætt. Þetta frumvarp er ekki bara um þetta mikla öryggisnet sem lýtur að því að við eigum greiðan aðgang að fjarskiptum og að það sé verið að tryggja öllum jafnan aðgang að fjarskiptum. Við tryggjum það svo sem ekki með lögum eins og þessum, ekki frekar en að við tryggjum heilbrigðisþjónustu um allt land þó að við skrifum það í lögin. En það er ekki síður mikilvægt að tryggja að það verði ekki einokun á markaði, þar ríki virk samkeppni og stjórnvöldum sé gefið einhvers konar tæki til að beita þvingunum ef fyrirtæki eru að fara of gáskalega í þessu. Að lokum spyr ég hv. þingmann: Telur hann að eftirlitsstofnanir eins og t.d. Fjarskiptastofnun eða aðrar eftirlitsstofnanir (Forseti hringir.) hafi burði til að hafa nægt eftirlit með t.d. samkeppni á Íslandi (Forseti hringir.) eða að aðrar stofnanir fari eftir leikreglum?