152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:50]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki sjálfur reiknað það út, en mér reyndari menn í sjómálum hafa gert það. Þar koma tveir hlutir. Í fyrsta lagi, eins og hv. þingmaður benti á, þarf að vera ákveðin fjarlægð frá strengjunum. Síðan eru líka til reglur um hvað skip mega fara nálægt kvíum sem eru í sjó. Svo koma útreikningar, þeir eru víst ekki til frá Landhelgisgæslunni, en það eru til reglur hjá t.d. norsku strandgæslunni sem segja hversu mikið sérstaklega skemmtiferðaskip yfir ákveðinni stærð þurfa hvorum megin við sig eða hversu miklu vatni reiknað er með að þau þrýsti frá sér hvorum megin við sig. Og mér er sagt að ef þú leggur saman þessar þrjár tölur þá getir þú fyrst komist í nógu breitt svæði allra, allra yst í Seyðisfirði. Inn eftir firðinum eru þessar þrjár stærðir, séu þær lagðar saman, alltaf innan við breidd fjarðarins. Það er mikilvægt að við hugsum um þessa hluti á þessum svæðum vegna þess að ef sæstrengur eins og Farice dettur niður, þá er spurning hvort það sé nokkuð horft á Netflix og aðrar seríur í nokkuð góðan tíma. Það er ekki af hinu góða ef ekki er hugsað virkilega vel um öryggið á þessum fjarskiptamannvirkjum.