152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir tillöguna. Jú, þetta er eitthvað sem við gætum svo sannarlega horft á í atvinnuveganefnd, enda snerta tveir af þessum þremur hlutum svið atvinnuveganna og jafnvel hægt að segja að fjarskipti geri það líka. Þarna erum við að tala um eina af æðunum inn í landið fyrir ferðamenn. Þarna er búið að vera að vinna frábært uppbyggingarstarf við að fá fleiri og fleiri skemmtiferðaskip inn. Þegar ég hitti fólk þarna í kjördæmavikunni kom fram að það er mikil fjölgun aftur núna og verður bara mjög gaman að sjá Seyðisfjörð lifna aftur við eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldurs. (Forseti hringir.) Svo er það fiskeldið, svo sannarlega, og svo (Forseti hringir.) náttúrlega lífæðin fyrir öll fjarskipti og nýsköpun, sem er ljósleiðarinn.