152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Varðandi reikiþjónustuna þá er það hreinlega öryggismál að vera með reikiþjónustu á milli kerfa á þessum dreifðu stöðum um landið og á vegunum. Það að reyna að fara að byggja upp farsímasenda frá öllum fjarskiptafyrirtækjunum þannig að hver einasti hluti hringvegarins t.d. eða annarra vega sé dekkaður er ekki hægt. Það svarar ekki kostnaði og það er ekkert mál að setja upp reiki á milli farsímakerfa. Í 54. gr., að ég held, er talað um að það sé mögulegt fyrir ráðherra að setja reglugerð um reikiþjónustu og m.a. að skylda, ef ég hef náð að lesa þetta rétt, fjarskiptafyrirtækin til að vinna saman á ákveðnum stöðum. Ég hef farið víða um heim og séð mörg fjarskiptakerfi þar sem þetta hefur verið gert. Þar næst betri dreifing, betri notkun og við erum jafnvel farin að sjá sérstaka aðila reka sums staðar kerfin og bjóða í rauninni farsímafyrirtækjunum þá þjónustu að vera með turn einhvers staðar.

Varðandi neytendur þá hefði ég viljað fara dýpra í það, en tíminn er að klárast. Það sem ég vildi einna helst tala um þar er að við verðum að hugsa um hvaða þjónustu við erum að tryggja neytendum og líka hvaða vernd við erum að tryggja þeim versus það hvernig við hugsum um öryggi þeirra og pössum upp á að þjónusta til þeirra sé veitt. Þarna þurfum við virkilega að vega og meta hlutina og ég vona að hv. nefnd geri það.