Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir. Mig langaði að eiga nokkur orð. Það er oft þannig að EES-reglugerðir rúlla hérna í gegnum þingið án þess að nokkur skoði hvað verið er að gera. Það er mikilvægt að átta sig á því að það eru oft ástæður á bak við þær reglugerðir sem við erum að fá hingað inn. Eins og hæstv. ráðherra orðaði það er svolítið mikið af fjármálatengdum reglugerðum sem kemur hingað og þessi ákveðna reglugerð setur ramma utan um starfsemi stórra eignarhaldsfélaga. Í þingsályktunartillögunni er bent á að þetta hafi kannski ekki stórvægileg áhrif á Íslandi en það er mikilvægt að við áttum okkur á því að það þurfa að vera reglur í kringum svona starfsemi. Ég held að fæstir Íslendingar hafi heyrt orðið eignarhaldsfélag fyrr en fór að nálgast árin 2007 og 2008 og svo á árunum eftir hrun voru allt í einu eignarhaldsfélög endalaust í fréttum. Bankarnir áttu þau á lager í skúffunum hjá sér, enda hétu þau bara einhverjum bókstöfum eftir nafninu á endurskoðunarskrifstofunni sem átti að sjá um þetta og svo var bara númer fyrir aftan. Þetta er vinsælt vegna þess að þetta er oft notað til þess að skerma af ákveðnar fjárfestingar og ef þú ætlar að fara í ákveðnar fjárfestingar og vilt takmarka ábyrgðina og takmarka skattaleg áhrif og ýmislegt annað þá borgar sig að búa til eignarhaldsfélög í kringum það.

Ég held við höfum lært það af því sem gerðist í kringum hrunið að það borgar sig að hafa góðar reglur í kringum slíkt. Eins og ég nefndi áðan er þetta sérstaklega hugsað fyrir stór eignarhaldsfélög. Mér þykja engu að síður mjög áhugaverðar þær kröfur sem gerðar eru til stórra eignarhaldsfélaga og í mínum huga er þetta eitthvað sem við gætum líka horft til varðandi hreinlega stór fjármálafyrirtæki. Þarna eru kröfur um að starfskjarastefna fjármálafyrirtækjanna skuli vera kynhlutlaus. Þetta er eitthvað sem er nú mikið talað um, starfskjörin í fjármálafyrirtækjum, að það sé eins gott að þau séu kynhlutlaus. Það er líka kveðið á um ábyrgð fjármálafyrirtækja og móðurfélaga þeirra við að tryggja hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og heimild lögbærs yfirvalds til að víkja þessu fólki frá ef það uppfyllir ekki hæfnisskilyrðin. Ég hef heyrt ýmsar sögur af því að oft uppfyllir fólk, sem hefur verið skipað í stjórnir eða jafnvel framkvæmdastjórastöður, ekki þau hæfisskilyrði. Ef við hugsum okkur t.d. lífeyrissjóðina okkar, sem eru stór eignarhaldsfélög; viljum við ekki að þau sem þar stjórna séu vel hæf til að starfa við það, hafi góða þekkingu og fjölbreyttan bakgrunn? Jú, ég myndi halda að það væri hlutur sem myndi nýtast okkur vel og nokkuð sem við ættum að skoða hvernig megi betur fara.

Að lokum er talað um fjölbreyttan bakgrunn. Það er dálítið þannig þegar horft er yfir hinar ýmsu stjórnir fjármálafyrirtækja og annarra þá eru það oft sömu aðilarnir með ákveðinn bakgrunn sem koma aftur og aftur. Það getur verið af hinu góða ef bara er verið að fjárfesta t.d. í fasteignum, að hafa einhvern með fasteignabakgrunn. En ef verið er að fjárfesta í mismunandi hlutum er einmitt mjög gott að það sé þessi breiði bakgrunnur vegna þess að til þess að fjárfesta í fasteignum eða fjárfesta í t.d. tæknifyrirtækjum, eins og við munum ræða í annarri góðri ESB-reglugerð sem kemur seinna í dag, þarf allt annan bakgrunn. Það er því mikilvægt að við leggjum við hlustir og heyrum hvað það er sem er raunverulega verið að innleiða hér. Kannski á það ekki endilega við um okkur þar sem við eigum ekki of mörg eignarhaldsfélög sem eiga svona mikið eða eru svona stór. Það þýðir ekki að við getum ekki tekið það góða sem kemur til okkar, og hefur greinilega sýnt sig innan Evrópusambandsins að eru atriði sem þau hafa rekist á í sínum hluta eftir að hafa átt við það sem gerðist eftir 2008, að við getum ekki nýtt það sem hugmyndir og reglur til að setja fyrir smærri félög hér heima.

Svo megum við ekki gleyma því að við erum orðin hluti af samevrópskum fjármálamarkaði sem þýðir að ef við erum ekki með reglur fyrir svona stór eignarhaldsfélög þá gætum við orðið skálkaskjól fyrir slík félög þar sem þau kæmust upp með að gera hluti sem þau kæmust ekki upp með að gera annars staðar í Evrópu. Kannski komumst við einmitt í eitt annað frumvarp seinna í dag, ekki tengt ESB að þessu sinni, þar sem Ísland er að verða skálkaskjól þegar kemur að fiskeldi í sjó þar sem umhverfisreglurnar eru of orðnar of strangar í Noregi og annars staðar. Við viljum hafa þær opnari og þar af leiðandi sjáum við alls konar fjármagn koma að utan til að fjárfesta hér meðan það er enn þá leyft. Það er nákvæmlega það sama sem gildir hér, við þurfum að hafa reglurnar, við getum lært af þessum reglum og við þurfum að passa að við verðum ekki skálkaskjólið þegar kemur að þessu.