Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir yfirferðina. Mér fannst ýmislegt áhugavert koma fram í máli hans. Mig langar að drepa hér á einstaka atriði. Hv. þingmaður talar um að þær reglur sem við erum að tala um að innleiða hér séu til þess ætlaðar að skerma af starfsemi þessara eignarhaldsfélaga í fjármálageiranum, sem tengjast þar almennt. Við þekkjum það, sem lifum og hrærumst hér, að þessi séríslensku eignarhaldsfélög eru einstaklega fallega og oft á tíðum listilega vel ofnir kóngulóarvefir sem ætlað er að gegna allt öðru hlutverki en því að upplýsa almenning um raunverulega stöðu. Það á ekki bara við um eignarhaldsfélög í fjármálageiranum heldur víða. Nærtækt er að nefna hér eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja í íslensku atvinnulífi þar sem segja má sem svo að sá vefur sem þar hafi verið ofinn sé þess eðlis að þetta séu á einhvern hátt opinberar upplýsingar en að sama skapi svo listilega falið inni í kerfinu að það er ekki á færi nema sérfróðra einstaklinga að safna þeim upplýsingum. Síðan halda stjórnvöld vörnina vel þar, þannig að ekki komumst við að því efni.

Mig langaði til að spyrja, vegna þess að það eru aðstæður sem er erfitt að sjá fyrir sér að væru viðurkenndar innan Evrópusambandsins — og kannski líka í tengslum við bankasöluna núna og þá leynd sem enn er uppi um það hverjum var boðið að taka þátt: Sér hv. þingmaður það fyrir sér að þessi tiltekna gerð muni hafa áhrif á gegnsæi í þessum eignarhaldsfélögum fjármálafyrirtækja? Eða þurfum við að bíða annarra gerða með að tryggja þá upplýsingagjöf stjórnvalda og embættismannakerfisins til íslensks almennings? Dugar þetta til þar, til viðbótar við annað jákvætt sem þessi gerð mun leiða af sér?