Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:24]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin. Já, ekki eins stór skref og við hefðum viljað sjá. Kannski er það þannig að þessi gerð felur ekki í sér það stóra skref vegna þess að þau lönd Evrópu sem hafa raunverulega aðkomu að því að smíða þessar gerðir glíma ekki við þetta sama vandamál út frá hagsmunum almennings, eða eitthvað annað orð myndu sérhagsmunaaðilar væntanlega nota. Það hefði verið áhugavert að sjá ef hagsmunum Íslands hefði verið haldið á lofti við þessa gerð.

Mig langar hins vegar til þess hér í seinna andsvari að biðja hv. þingmann að leiða hugann að stöðu lífeyrissjóðanna okkar inni í þessu öllu saman. Þeir eru annað svolítið séríslenskt fyrirbæri og gríðarlegur styrkleiki þeirra í íslensku atvinnulífi almennt og í helstu fyrirtækjum og líka á fjármálamarkaði. Það gilda svolítið aðrar reglur um þessa lífeyrissjóði en það er ekki endilega alltaf svo að gegnsæið sé meira eða annað slíkt. Ég hefði áhuga á því að heyra vangaveltur hv. þingmanns um það, þegar verið er að ræða um eignarhaldsfélög á fjármálamarkaði almennt og beina hluthafa, hvar lífeyrissjóðirnir koma inn og hvernig við getum tryggt, þegar við erum að reyna að laga kerfið okkar að því sem best gerist í Evrópu, samræma það, að þeir falli þar inn í. Við eigum svo ótal mörg dæmi um þetta. Við horfum t.d. upp á það við sölu bankans að þeir eru komnir beggja megin við borðið, þeir eru orðnir enn sterkari en áður var í rekstri sem einhverjir hefðu einhvern tímann talið að væri ekki beinlínis þeirra kjarnastarfsemi. Á meðan við erum að laga okkur að þessu samevrópska kerfi (Forseti hringir.) út af Evrópska efnahagssvæðinu, sitjum við þá alltaf með þetta útskot sem eru lífeyrissjóðirnir okkar þegar við erum að tala um starfsemi fjármálamarkaða?