Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 171/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

500. mál
[18:19]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Við skulum vona að við getum þá afgreitt þetta hratt í gegnum þingið fyrst þetta er búið að bíða svona lengi. Það er mjög athyglisvert að þarna er verið að setja reglur um gagnsæi og samanburð á gjöldum sem neytendur þurfa að greiða. Það hefur einmitt ekki verið alveg nógu gagnsætt fyrir íslenska neytendur hvaða kostnað bankarnir eru að taka til sín, sér í lagi þegar kemur að því að fá hina ýmsu þjónustu. Í gamla daga var jú munurinn á innvöxtum og útvöxtum notaður til að reka bankann en í dag virðast það vera þjónustugjöld.

Mig langaði að vita hvort hæstv. ráðherra gæti skýrt út hvort það sé réttur skilningur minn á reglugerðinni að hún auðveldi líka t.d. Íslendingum sem flytja til Evrópusambandslanda að opna bankareikninga eða greiða reikninga þegar flutt er til að mynda á milli landa. Hafandi sjálfur flutt á milli þó nokkurra Evrópusambandslanda þá er það oft eitt af meiri flækjustigum að opna á bankareikninginn. Það er talað hérna um að stofna reikninga vegna greiðslna yfir landamæri og skil ég það rétt að það muni auðvelda það að vera með viðskipti í öðrum löndum?