Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 76/2022 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

501. mál
[18:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2022. Ákvörðunin fellir inn í EES-samninginn ESB-tilskipun og reglugerð um sértryggð skuldabréf.

Sértryggð skuldabréf eru skuldaviðurkenningar sem bankar og aðrar lánastofnanir gefa út sem eru ekki tryggðar með hefðbundnum veðum. Þess í stað eru þau tryggð með söfnum traustra eigna sem uppfylla tiltekin lögákveðin skilyrði, svo sem um hámarksveðhlutföll.

Tilskipunin mælir fyrir um hvaða eignir geti verið í tryggingasafni sértryggðra skuldabréfa, en það eru aðeins traustar eignir á borð við ríkisskuldabréf og fasteignaveðlán. Í tryggingasafni skal ávallt vera nægt laust fé til að standa undir hámarksútgreiðslum af skuldabréfunum næstu 180 daga. Kveðið er á um reglubundna upplýsingagjöf útgefenda til fjárfesta, m.a. um virði og samsetningu tryggingasafns. Útgáfa sértryggðra skuldabréfa skal vera háð leyfi og sæta opinberu eftirliti. Skuldabréf sem uppfylla kröfur tilskipunarinnar má markaðssetja á Evrópska efnahagssvæðinu sem evrópsk sértryggð skuldabréf.

Reglugerðin fjallar um eiginfjárkröfur til lánastofnana vegna fjárfestinga í sértryggðum skuldabréfum. Sértryggð skuldabréf eru talin áhættulítil fjárfesting sem kallar því ekki á mikið eigið fé.

Ákvæðum gerðanna svipar til þess lagaramma sem þegar gildir um sértryggð skuldabréf hér á landi. Innleiðing þeirra kallar því líklega ekki á verulegar lagabreytingar. Vonir standa þó til þess að innleiðing gerðanna muni greiða fyrir útgáfu og viðskiptum íslenskra lánastofnana með sértryggð skuldabréf þvert á landamæri Evrópska efnahagssvæðisins.

Virðulegi forseti. Ákvörðunin kallar á lagabreytingar hér á landi og stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp til innleiðingar á næsta löggjafarþingi.

Ég legg til, forseti, að þegar umræðu þessari lýkur verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.