152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[20:57]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 684 sem er 475. mál, um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli, og lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru er varðar lífræna framleiðslu.

Markmiðið með frumvarpinu er að innleiða í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2018/848 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara. Reglugerðin leysir af hólmi eldri reglur um lífræna framleiðslu sem teknar voru upp í EES-samninginn og innleiddar hér á landi. Hinar eldri reglur voru innleiddar með stoð í lögum nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu. Þau lög eru komin til ára sinna og veita ekki fullnægjandi lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar (ESB) 2018/848.

Með frumvarpinu er því lagt til að gerðar séu breytingar á lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru til innleiðingar á nefndri reglugerð Evrópusambandsins um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara, jafnframt að lög nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu, verði felld brott í heild sinni.

Með innleiðingu er stefnt að því að einfalda regluverk sem gildir um lífræna framleiðslu, styrkja eftirlitskerfi með framleiðslunni, stuðla að ábyrgri notkun orku og náttúruauðlinda, aukinni dýravelferð og að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni.

Tilgangur laga nr. 93/1995, um matvæli, er að tryggja svo sem kostur er gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi og taka lögin til framleiðslu og dreifingar á öllum stigum. Að sama skapi er tilgangur laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, að tryggja svo sem kostur er öryggi og heilnæmi fóðurs og gæði áburðar og sáðvöru. Saman mynda lögin umgjörð um alla matvælaframleiðslu og undirstöðu hennar í landinu.

Lífræn framleiðsla lýtur strangari kröfum en hefðbundin framleiðsla matvæla og koma reglur um lífræna framleiðslu til viðbótar við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/625 um opinbert eftirlit sem innleidd voru í lög nr. 93/1995, um matvæli, og lög nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Með frumvarpinu er lagt til að lög nr. 93/1995, um matvæli, nái einnig yfir lífræna framleiðslu á öllum stigum framleiðslu og dreifingar matvæla. Lagðar eru til orðskýringar um lífræna framleiðslu og aðlögun að slíkri framleiðslu. Skerpt er á því að óheimilt sé að nota hvers kyns orð eða tákn sem vísa til lífrænnar framleiðslu þegar vottun eru ekki fyrir hendi og er það gert með hagsmuni neytenda og framleiðenda að leiðarljósi. Þá er lagt til að Matvælastofnun fari með eftirlit með lífrænni framleiðslu að undanskildu markaðseftirliti sem verður áfram í höndum heilbrigðiseftirlitssvæða. Lagt er til sérákvæði um að heimilt sé að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla heimild framleiðenda þegar ekki er farið að þeim kröfum sem gerðar eru til framleiðslunnar. Að auki eru lagðar til reglugerðarheimildir til innleiðingar á reglugerð (ESB) 2018/848 og til þess að kveða nánar á um lífræna framleiðslu í reglugerð. Þá eru lagðar til sambærilegar breytingar á lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, hvað varðar heimild til notkunar á orðum og táknum sem vísa til lífrænnar framleiðslu sem og tímabundið brottfall eða afturköllun þegar ekki er farið að kröfum. Að lokum eru lagðar til reglugerðarheimildir annars vegar til innleiðingar á reglugerð (ESB) 2018/848 og til að kveða nánar á um lífræna framleiðslu fóðurs, áburðar og sáðvöru.

Lífræn framleiðsla hefur aukist umtalsvert á hér á landi síðustu ár og eftirspurn neytenda eftir slíkum vörum að sama skapi. Lífræn framleiðsla er öflugt vopn í baráttunni við loftslagsbreytingar og sýklalyfjaónæmi. Hún stuðlar að sjálfbærni og líffræðilegum fjölbreytileika. Með frumvarpi þessu er regluverk um lífræna framleiðslu í landinu einfaldað er það jafnt til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur og þau sem fara með opinbert eftirlit með framleiðslunni.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlega fjallað um efni þess. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.