Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:09]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að fram undan séu gríðarlega stór tækifæri þegar kemur að því að gera íslenskan landbúnað út með þeim hætti að hann sé í góðum takti við loftslags- og vistverndarmál. Það tekur tíma en það er vel hægt. Það er mjög víða sem þessi mál eru í góðum farvegi. Ég held að enginn bóndi vakni á morgnana og ætli sér að ofbeita land. Það er samt því miður svo. Það sem ég er að reyna að segja er að enginn er með þær fyrirætlanir í sínum búskap að gera það en á sumum stöðum er það samt þannig, það er það sem vísindin segja okkur. Þetta eru verkefni sem við þurfum að vinna að og já, það mun taka tíma, til þess þurfum við öflugt regluverk, til þess er verið að endurskoða reglugerð um sjálfbæra nýtingu lands og í því samhengi er mjög mikilvægt að við látum það tala saman við þá styrki sem við erum með í landbúnaði. Styrkir í landbúnaði eiga að mínu mati að taka ríkulega mið af umhverfisaðstæðum, umhverfisáhrifum þess landbúnaðar sem um er að ræða og við eigum að beita styrkjunum líka í þá átt að við séum að laga illa farið land þannig að það geti í framtíðinni staðið undir þeirri nýtingu sem það þarf að geta gert.