Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:24]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil undirstrika að ég er enginn einsýnismaður í þessu frekar en öðru. Ég vil vera talsmaður jafnvægis. Ég vil ekki fara að leiða umræðuna almennt út í stöðu Íslands innan þessa samstarfs en vil þó bara undirstrika að ég get tekið undir það með hv. þingmanni að margt gott hefur komið út úr þessu samstarfi eða þessari aðild að EES-svæðinu og EES-samningnum. Hins vegar er vert að hafa það mjög fast í huga hver staða smáríkja er innan þessa samstarfs og að hraði Evrópusambandsins í átt til sambandsríkis hefur aukist, sérstaklega eftir brotthvarf Breta út úr því samstarfi, þannig að það er að sumu leyti áhyggjuefni að sjá á hvaða ferðalagi Evrópusambandið er. Þess vegna tel ég brýnt að þeir sem hér sitja á Alþingi Íslendinga séu með augun opin og við séum tilbúin að stíga á bremsuna þegar þess þarf.