Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:28]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil af þessu tilefni fá að undirstrika mjög mikilvægt atriði og ég vona að þeir sem hér sitja séu meðvitaðir um það. Umræða í þingsal eins og þessum þar sem rætt er um efnisatriði laga sem síðan eiga að gilda um allan almenning í landinu er mjög mikilvæg og það byggir á grundvallarhugmyndinni um að lögin verði til í samfélagi manna og spretti upp úr grasrót samfélagsins en komi ekki ofan frá eins og hlemmur ofan á fólk. Hér takast á tvær grundvallarhugmyndir, af því að við erum að tala um Evrópusambandið: Það er einhvers konar lýðræðishugmynd um lögin þar sem lögin verða til sem sammæli sem vaxa neðan frá og upp, sem er þá lýðræðislegt í anda forngermanskra hugmynda til að mynda og meira í anda hins engilsaxneska réttar, og svo hins vegar í anda þeirra tveggja ríkja sem hv. þingmaður nefndi, Frakka og Þjóðverja þar sem lögin koma ofan frá og niður frá miðstýrðu valdi niður til alþýðunnar sem hefur ekkert um það að segja. Sem sagt, andmæli mín við þá stöðu sem Ísland er í, sem ég tel að sé býsna alvarleg, stöðu þjóðar sem hefur ekkert um það að segja hvernig lagaákvæði hljóma sem eiga að gilda hér um þjóðina alla og ekki er unnt að breyta og ekki er unnt að afnema — staða slíkrar þjóðar er sannarlega áhyggjuefni til lengri og skemmri tíma. Ég vil líka að lokum draga stórlega í efa það sem kom fram í máli hv. þingmanns um að smáríki hafi þegar til kastanna kemur og þegar á reynir raunverulega eitthvað um það að segja hvar línan liggur í stórum málum. (Forseti hringir.) Þar sýnist mér að Evrópusambandið hafi lagt allt vald í hendur stóru aðildarríkjanna.