Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:30]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég má bara til með að koma því á framfæri að ég tala hér sem stoltur Íslendingur þegar ég finn að því að Íslendingar hafa mjög lítið um löggjöf sem þessa að segja á vettvangi ákvarðanatökunnar sjálfrar. Það má hafa slíkar áhyggjur frammi án þess að lítið sé gert úr hinu íslenska löggjafarþingi. Staðreyndin er sú að Íslendingar hafa ekki rödd sem hefur vægi í Brussel, í Strassborg og í þeim eftirlitsstofnunum sem hafa eftirlit með því að þeirri löggjöf sem hér hefur gildi sé framfylgt. Við erum ekki bara að tala um það að hafa aðkomu að lagasetningunni. Lagasetning hefur bara svo margt fram að færa íslensku þjóðfélagi vegna þess að aðild okkar að EES-samstarfinu felur líka í sér eftirlit. Ef við værum fullgildir aðilar að Evrópusambandinu þá hefðum við dómara við Evrópudómstólinn. Við hefðum ráðherra, við hefðum X-marga þingmenn á Evrópuþinginu. Mér finnst það betri aðstaða en að hafa þar engan í dag.