152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[14:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Síðast þegar ráðherra gaf skýrslu skv. 61. gr. þingskapalaga tók það 17 mínútur. Ég held að það setji ekki allt úr skorðum þó að við finnum þann tíma á dagskránni og ég segi fyrir sjálfan mig að ég er tilbúinn að semja af mér kaffipásuna ef það þarf til að svo geti orðið.

Ég vil líka benda forseta á að hér hafa tjáð sig fulltrúar, að mér sýnist, allra stjórnarandstöðuflokkanna þar sem við lýsum öll vilja okkar til að eiga þessa umræðu við hæstv. ráðherra. Þá strandar bara á ákveðnum flokkum. Það eru stjórnarflokkarnir sem hafa ekkert tjáð sig um þetta. Á þá að skilja það sem svo að stjórnarflokkarnir vilji ekki að þessi umræða eigi sér stað? Er ástandið í Stjórnarráðinu orðið það viðkvæmt, eins og endurspeglast í því t.d. að formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann er spurður hvort hann styðji innviðaráðherra, segir ekki já. Það er eina svarið sem er í boði þegar þú ert ráðherra í ríkisstjórn. Ef þú styður ríkisstjórnina sem ráðherra þá segirðu: Já, mér finnst hann ekkert eiga að segja af sér. Sama er með (Forseti hringir.) Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem mig minnir að sé hvað, varaformaður? Ritari? Hún er alla vega ráðherra flokksins. (Forseti hringir.) Hún vildi ekki láta hafa eftir sér hvort hún styddi innviðaráðherra. (Forseti hringir.) Þola þau ekki umræðuna hérna af því að það er engin ást eftir í þessu?