152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla hér um fjármálaáætlun, nærri 500 blaðsíðna rit, eiginlega skáldsaga, a.m.k. stendur ekki mikið rétt í henni, get ég ímyndað mér, nema ráðherra geti útskýrt fyrir mér hvernig hann ætlar að fara að því að hækka hjá öryrkjum um 2,5% á þessu tímabili, ár eftir ár í 6 eða 7% verðbólgu og um 3% hjá eldri borgurunum. Þar af hálft prósent vegna fjölgunar eldri borgara þannig að það hlýtur að vera um 2,5% hækkun á lífeyrinum og hálft prósent vegna fjölgunar eldri borgara. Nú er kjaragliðnun á undanförnum árum og áratugum í almannatryggingakerfinu farin að nálgast 50%, á tíma fyrri ríkisstjórna og þessarar. Á sama tíma og breiðu bökin hafa hreinlega bara brotnað undan þessum byrðum sem lagðar eru á þau vegna kjaragliðnunar, þá ætlar þessi ríkisstjórn að bæta enn þá í. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum dettur ykkur í hug líka að fara að taka inn lífeyrissjóðakerfið, reikna það einu sinni á ári til þess að búa til enn eina kjaragliðnunina? Og ég spyr: Er þessi lækkun inni í þessari fjármálaáætlun, líka það sem vantar ef ekki á að bæta upp verðbólgu á næsta áratug? Nema menn hafi einhverja sérstaka kúlu sem segir að verðbólgan sé að hverfa en hún er í 7% og fer hækkandi og fer hækkandi í kringum okkur þannig að varla er hún á niðurleið strax. Það væri þá alla vega a.m.k. lágmarkskrafa að hafa þetta rétt fyrstu árin. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum fáið þið út þessa 2,5% hækkun næstu fjögur árin í verðbólgutímabili? Var það aldrei ætlunin að bæta upp kjaragliðnunina eins og þið lofuðuð fyrir síðustu kosningar?