152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:00]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla jafnvel að reyna að skila þessum sekúndum sem ég rændi hérna áðan. Það er ánægjulegt að heyra hv. þingmann lýsa yfir stuðningi við aukin útgjöld til heilbrigðismála. Ég held að honum og öðrum hljóti að vera ljóst að það sem lagt er upp með í þessari fjármálaáætlun er ekki í nokkru einasta samræmi við yfirlýsingar stjórnarliða, við stjórnarsáttmálann og þau fyrirheit sem hafa verið gefin og voru gefin kjósendum í aðdraganda kosninga. Það hlýtur öllum að vera ljóst. Ef við ætlum að taka á þessum áskorunum, ef við ætlum að stytta biðlista barna eftir nauðsynlegri þjónustu og ef við ætlum að leysa úr vanda sjúkrahúsanna þá þarf einfaldlega að setja miklu meiri pening í það kerfi. Það er bara þannig. Það er ánægjulegt að hv. þingmaður sé sammála mér um það og muni styðja slíkar aðgerðir og slíkar breytingartillögur við þessa fjármálaáætlun.