152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Húsnæði, þak yfir höfuðið og heilsa. Það er ekki mikið annað sem fólk þarf á að halda til að hafa grunninn til staðar. Varðandi þá fjármálaáætlun sem er birt okkur hérna þá fáum við þau skilaboð í fjárlaganefnd að það sé einfaldlega sagt nei við t.d. beiðni um fjárheimild vegna byggingar hjúkrunarheimila. Vegna annarra heimila þá velti ég fyrir mér hvað sé eiginlega markmiðið. Við vitum hver skorturinn er en það er ekkert komið til móts við þann skort sem er á húsnæðismarkaðnum, húsnæðisvandann á Íslandi, ekki neitt. Þannig að maður veltir fyrir sér: Hvar er það átak sem innviðaráðherra vildi endilega fara svo mikið út í? Þótt hv. þingmaður hafi lofað mjög stefnu stjórnvalda undanfarið kjörtímabil þá var það stefna stjórnvalda á eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðarins sem bjó til þá verðbólgu (Forseti hringir.) sem við búum við núna að langmestu leyti. Það eru einfaldlega hagstjórnarmistök (Forseti hringir.) sem var bent á aftur og aftur. Hvað eigum við að gera í því?