152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ þá tilfinningu, og hef oft fengið þá tilfinningu, en sérstaklega núna varðandi þessa fjármálaáætlun að það er einfaldlega búinn til rammi um það hvernig afkoman þarf að vera til að skila hallalausum rekstri árið 2027. Allt annað víkur. Ef það þarf að henda þjóðarleikvangi í burt eða hjúkrunarheimilum burt til þess að fjárheimildir passi innan þess ramma sem er ákveðinn til að ná þessu markmiði, er það gert. Það er gert þrátt fyrir að við vitum öll að það þarf að fara í þessar byggingar eða framkvæmdir og klassíkin er sú að ef það finnst eitthvert fé þegar að þessu kemur þá er því bætt inn án þess að það hafi nokkur áhrif á skuldastöðuna, en þá bara ef það hefur ekki áhrif á skuldastöðuna. Það er einfaldlega óheiðarlegt, nákvæmlega ekkert flóknara en það. Ég velti því rosalega mikið fyrir mér þegar fagráðherra, sem ber ábyrgð á ákveðnum lögum sem Alþingi hefur sett — það er ákveðinn kostnaður við lagasetningu, við fáum greiningu á því hvað lagafrumvarp kostar og þess háttar — kemur til okkar og segir: Ég ætla að framfylgja þessum lögum sem ég ber ábyrgð á, meira að segja persónulega með ráðherraábyrgð, og ég tel að það kosti þetta mikinn pening, þá er það ekki Alþingi sem segir: Nei, þú færð minni pening í það, heldur er það fjármálaráðuneytið sem gerir það. Hvaða heimild hefur fjármálaráðuneytið til að gera það? Fjárveitingavaldið er ekki í fjármálaráðuneytinu, það er hérna á Alþingi. Ráðherra á að koma með þá upphæð sem hann telur að hann þurfi til að framfylgja sínum skyldum, innan framkvæmdarvaldsins, samkvæmt lögum og við á Alþingi metum hvernig forgangsröðuninni er háttað upp á efnahagsástandið í heild sinni. (Forseti hringir.) Við fáum að sjálfsögðu ráðleggingar um það hjá fjármálaráðuneytinu um það hvernig eigi að afla fjárheimilda og þess háttar, afla tekna fyrir því líka. (Forseti hringir.) Það er algert lykilatriði sem er algerlega hunsað í þessari fjármálaáætlun. (Forseti hringir.) Það er engin hugsun hér um tekjuöflun, enda er markmiðið að lækka skatta, sem er verðbólguhvetjandi.