152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Húsnæðis- og skipulagsmál standa nokkurn veginn í stað. Það er verið að lækka sérstaklega hluta stofnframlaga, ekkert rosalega mikið, eitthvert smáræði. En á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að greiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segja okkur að það vanti eitt þúsund fleiri íbúðir í byggingu. Miðað við það að stofnframlög ríkisins eru 18% af byggingarkostnaði, bara smáuppreikningur í því, þá eru það u.þ.b. 7 milljarðar. Það væri gott ef ríkið myndi bara koma og segja: Heyrðu, við ætlum að taka þátt í byggingu allra þessara eitt þúsund íbúða. Það er stefna stjórnvalda. Við ætlum að ná því markmiði. Við ætlum að stíga inn í og bara vera með.

Það eru nú einu sinni ríkisstjórnarflokkarnir sem ráða stefnu stjórnvalda, ekki satt? Af hverju eru ríkisstjórnarflokkarnir að sækja stefnu sína til vinnumarkaðarins? Að sjálfsögðu kemur vinnumarkaðurinn með ákveðnar hugmyndir sem alltaf eru samningaviðræður um í kjarasamningum. En ég myndi áætla að frumkvæðið í svona stóru máli væri tvímælalaust hjá ríkisstjórnarflokkunum. Þeir flokkar taka sér það vald að stjórna Alþingi, fjárveitingavaldinu, líka framkvæmdarvaldinu, og þá myndi ég vilja gera þá kröfu til þeirra að leysa eitt af þeim grunnvandamálum sem eru í gangi í samfélaginu, og það er húsnæðisvandinn. Þeir skila einfaldlega auðu þar og segja: Ef eitthvað gerist þá komum við til móts við það. En það er ekki stefna og það er ekki að hafa sýn á það hvað það þýðir í samhengi við efnahagshorfur, skuldastöðu og afkomu ríkisins sem er eitthvað sem hefur áhrif á lykilstærðir í samfélaginu hjá okkur, bara þjóðhagsstærðirnar varðandi verðbólgu o.s.frv. Myndum við t.d. sjá lækkun á verðbólgu vegna stefnu stjórnvalda um að koma til móts við uppbyggingu íbúða? Það væri áhugavert að sjá.