152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:03]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samdrátturinn, þegar kemur að stofnframlögum, er ekkert smotterí. Við erum að tala um 2 milljarða. Þau dragast saman um 2 milljarða milli ára þegar þau ættu einmitt að vera að aukast. Ríkið ætti að vera að stíga inn með enn kraftmeiri hætti þegar kemur að því að auka framboð af húsnæði, af leiguíbúðum og búseturéttaríbúðum o.s.frv., bæði í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum.

Það er athyglisvert að innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins sagði hér í sérstakri umræðu fyrir örfáum vikum: „Sá ráðherra sem hér stendur leggur mikla áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis um allt land og hefur lagt inn tillögur í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 um verulega aukningu fjármuna til að fjölga uppbyggingu íbúða fyrir tilstuðlan opinbers húsnæðisstuðnings.“ Svo kemur fjármálaáætlun þar sem útgjöldin skreppa í raun lítillega saman. Þetta er eitthvað svo kaldhæðnislegt. Framsóknarflokkurinn var sigurvegari síðustu kosninga, talandi mikið um félagslega fjárfestingu, að fjárfesta í fólki o.s.frv., en svo er eins og hæstv. fjármálaráðherra, sem heldur um budduna, sé einhvern veginn að leika sér að því að niðurlægja ráðherra Framsóknarflokksins. Eins sjáum við gríðarlegt útgjaldaaðhald þegar kemur að menntamálum, þegar kemur að menningarmálum, þegar kemur að heilbrigðismálum. Þetta eru málaflokkar Framsóknarflokksins. Ég veit ekki alveg hvort það geti verið að þau fylgist ekki með eða skilji ekki almennilega töflurnar sem við ræðum hérna. Þau tala eins og hér sé ofboðslega framsýn og velferðarsinnuð ríkisstjórn við völd en svo er það þetta sem við sjáum í excel-skjölunum hjá okkur, fjársveltistefna.