152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég veit ekki hvar ég á að byrja í þessu. Þarna er þessi svokallaði hagnaður spítalans, millifærsla úr varasjóðum og ýmsu svoleiðis, eitthvað sem var í raun ekki ætlað í rekstur spítalans til að byrja með, fyrir utan Covid-kostnaðinn var einmitt verið að millifæra heimildir úr safnliðum o.s.frv. til að dekka mínusinn, til að spítalinn gæti verið innan þessa samkomulags. Hv. þingmaður nefndi safnliðina og það er hluti af vandanum hér á þingi. Við eigum ekki að samþykkja fjárheimildir í geðþóttaákvarðanir ráðherra um það hvernig fara eigi með fjárheimildir. Þá getum við bara alveg eins sagt: Þetta fjárlagafrumvarp, þessi fjármálaáætlun, er upp á 1.200 milljarða, þið gerið það sem þið viljið við þá. Það bara virkar ekki þannig.