152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:24]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir framsöguna. Mig langaði til að varpa því fram varðandi það hvort þetta allt er ómögulegt eða frábært að í mínum huga snýr þetta kannski frekar að því hvort við séum að tala um framfarir eða bara kerfislægan framreikning. Það var ýmsu lofað í haust og ég velti því upp hvort það hljóti ekki að vera ákveðin vonbrigði fyrir hv. formann fjárlaganefndar að sjá til að mynda hvernig er að fara núna í húsnæðismálunum. Þetta er brostið loforð og í engu samræmi við það sem hefur verið haldið ítrekað fram. En mig langaði líka til að spyrja, af því að formaður fjárlaganefndar ræddi um stöðuna utan höfuðborgarsvæðisins, samgöngur og þess háttar, hvaða skoðun hún hefur á því að í þessari áætlun þá fer minnkandi hluturinn sem fer í fjárfestingu á þessu tímabili. Fjárfestingaráætlun stjórnvalda náði hámarki í eitt ár og svo fer hún minnkandi. Það eru bara svo mörg atriði hér sem eru ekki neitt, neitt og eru ekkert annað en bara kerfislægur framreikningur. Það hlýtur að vekja upp spurningar um hvort umræða um stórsókn í heilbrigðismálum, stórsókn í húsnæðismálum, stórsókn í samgöngum hafi kannski bara verið mismæli og of mikið upp í sig tekið á sínum tíma. Getur hún tekið undir með mér að við hefðum öll viljað sjá, í ljósi þess að við erum að selja núna bankana og fá inn allt þetta mikla fé sem við töpuðum hér eftir hrun og varð til þess að við fórum í niðurskurð, alvöruuppbyggingu hér á næstu árum en ekki bara þennan framreikning eins og hann birtist frá fjármálaráðuneytinu?