152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:28]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir svarið. Ég velti því upp með þessa stöðu sem er komin upp á húsnæðismarkaði, að fólk haldi að það sé ekki hægt að koma þessum stofnframlögum út — það er reyndar komið annað hljóð til að mynda í stærsta sveitarfélagið á landinu, Reykjavíkurborg, sem ætlar að tvöfalda fjölda lóða á næsta kjörtímabili — hvort ríkisstjórnin sæi sér ekki fært að styðja a.m.k. við aðra sem þurfa á þessu fjármagni að halda, til að mynda í að efla vaxtabótakerfið meira. Það er svolítið erfitt þegar alltaf er verið að tala um að vandinn sé bara á framboðshliðinni en síðan sé ekki hægt að laga framboðshliðina og á meðan bíða aðrir. Mig langaði í lokin stuttlega að spyrja formann fjárlaganefndar hvað henni finnst um þá staðhæfingu í fjármálaáætlun að það eigi að beita neyslusköttum með einhverjum hætti núna á næstu árum sem eru flötustu skattar sem er hægt að leggja á og þá staðreynd að það er hvergi talað um auðlindaskatta, skatt á fjármagnstekjur eða eignarskatta í þessari áætlun.