152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er alltaf gaman þegar stjórnarþingmenn segja hvað allt var æðislegt hérna áður. En tölurnar segja ýmislegt annað líka, sérstaklega um verðbólguþróunina sem er alltaf sama bölið sem við höfum reynt að forðast og það þurfti að fara í ansi miklar aðgerðir í uppsöfnun á gjaldeyrisforða o.s.frv. til að reyna að hamla þeirri þróun. Það tókst svo sem ágætlega, en svo komu aðgerðir ríkisstjórnarinnar á húsnæðismarkaði þar sem var dælt í eftirspurn, til að hjálpa fólki að kaupa. Þrátt fyrir það vantaði húsnæði á húsnæðismarkaði. Þetta vissu allir, bentu allir á og afleiðingarnar eru rosalega augljósar: Hækkandi verð. Þegar fleiri kaupa á markaði þar sem er skortur þá mun verðið hækka. Það skilar sér í verðbólgu og það kemur í ljós að stærsti liðurinn í verðbólgunni núna er einmitt húsnæðiskostnaður. Þetta þýðir líka að fólk sem er að koma inn á húsnæðismarkaðinn þarf að taka hærri lán. Jú, vissulega er þetta aukin eignamyndun fyrir þá sem þegar voru á húsnæðismarkaði, það kemur út sem hagvöxtur og eitthvað skemmtilegt og rosalega frábært fyrir bókhaldið. En það leggst ofan á þau lán sem fyrir voru, sem voru vissulega tekin á lægri forsendum en fyrir hækkun á húsnæðisverði. Mjög heppileg skipting, aukin eignamyndun þar en að einhverju leyti hærri greiðslur af lægri lánum sem þeir eigendur tóku. Framtíðin er hins vegar enn þá vandamál. Það er enn þá skortur á húsnæðismarkaðnum. Það er ekkert í þessari fjármálaáætlun sem málar nokkurs konar mynd af því hvernig mál eigi að vera leyst til framtíðar. (Forseti hringir.) Maður heyrir það á stjórnarliðum að það sé bara aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga að redda því. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er það stefna stjórnvalda að aðrir leysi þennan vanda?