152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í kaflanum Önnur ótilgreind fjárfesting er vikið að því að það stendur yfir heildarendurskoðun á þeim reglum sem um þetta fjalla og við skulum kannski klára þá vinnu áður en ég get svarað því ákveðið hvort það kalli á einhverja breytingu á lögunum um opinber fjármál. En það er líka í áætlanagerðinni sem við þurfum að innbyggja meiri sveigjanleika. Mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að vera heiðarleg þegar við horfum yfir farinn veg og spyrja okkur: Hvað var það sem brást þegar við ætluðum að koma þessu fjármagni út? Hér var vísað til þess hvernig hefði gengið með Teigsskóg. Ég er líka að hugsa um mál sem eru nær í tíma. Við höfum verið með mikla áherslu á að fjármagna byggingu hjúkrunarheimila t.d., það hefur gengið hægar en til stóð. Það hefur ekki staðið á þinginu og fjármagni. Það væri hægt að nefna fleiri dæmi. Ef við færum lengra aftur í tímann væri gaman að rifja hér upp sveitarstjórnarkosningar þar sem mest var rætt um Sundabraut sem er enn í langri framtíð einhvers staðar, þó ekki kannski mjög langri framtíð. Þjóðarleikvangarnir eru í mínum huga verkefni sem við gætum ákveðið að nýta þetta ótilgreinda fjárfestingarsvigrúm í að einhverju marki, að setja þá betur á dagskrá, en þar á eftir að leiða margt til lykta, t.d. um kostnaðarskiptingu við sveitarfélögin og annað þess háttar. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum ítrekað, aftur og aftur, líka í samgönguáætlun, stórkostlega ofmetið framkvæmdagetu okkar. Þingmenn veðrast allir upp þegar þeir eru að leggja lokahönd á samgönguáætlun og fyllast metnaði fyrir hönd landsins, heimabyggðar sinnar o.s.frv. og dæla inn á áætlunina alls konar verkefnum (Forseti hringir.) sem oft og tíðum eru vel fjármögnuð í framhaldinu. Það reynist svo mjög óraunhæft þegar kemur að því hvað hægt er (Forseti hringir.) að framkvæma mikið á skömmum tíma.