152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Einhvern tímann er allt fyrst — að vera kallaður næmur. Ég tek því mjög vel og þakka fyrir og mun bera þessi skilaboð til konunnar minnar. En varðandi þetta samspil ríkisstjórnarflokkanna þá held ég — nú er ég auðvitað að tala á grundvelli næmni minnar í þessum efnum. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá reyni ég að greina þetta og ég held að að einhverju marki hljóti þetta skýrast af því að forysta Framsóknarflokksins held ég að hafi gengið mjög hratt um gleðinnar dyr hvað það varðar að meta styrk sinn í kjölfar nýliðinna kosninga, kannski meiri en innstæða var fyrir. Stundum þarf nú aðeins að kæla þá sem fara fram úr sér og það gætu verið að einhverju marki þau skilaboð sem voru send í fjármálaáætlun að ráðherrar Framsóknarflokksins þurfi kannski aðeins að taka til í eigin ranni áður en allir þeirra villtustu draumar verða uppfylltir hvað fjárútlát varðar á kostnað okkar skattgreiðenda. En þetta er svona snögga greiningin á þessu. Ég hef ekki ígrundað svar en ég skal hugsa þetta, hvort það sé ástæða til að víkja frá þessari greiningu. En ég hugsa að þetta sé helsta skýringin á því að ráðherrar Framsóknarflokksins fái að einhverju marki afhent styttra strá en þeir höfðu haft væntingar um.