152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:01]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun sem byggir á þeirri fjármálastefnu sem lögð var fyrir þingið og samþykkt í lok síðasta árs. Ég ætla ekki að nota þessi upphafsorð til að fara sérstaklega yfir málaflokka míns ráðuneytis, en er að sjálfsögðu til svara um þá ef hv. þingmenn óska þess, heldur vil ég frekar ræða stóru myndina. Í stuttu máli er hún sú að góð staða ríkissjóðs í aðdraganda faraldurs gerði okkur kleift að nýta þá lærdóma sem við drógum af fjármálahruninu, þ.e. ríkissjóði var beitt markvisst til að milda efnahagsleg áhrif faraldursins á heimili og fyrirtæki og draga úr samdrætti í hagkerfinu. Það er áhugavert að skoða að ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna faraldursins nema u.þ.b. 280 milljörðum kr. á árunum 2020–2022, en umfangið var mest á árunum til 2021. Á síðasta kjörtímabili var staðið við áform um skattkerfisbreytingar í þágu þeirra sem höllustum fæti standa. Það var ráðist í öflug fjárfestingarverkefni og tilfærslukerfi voru efld. Ég tel að sú stefna hafi skilað okkur góðum árangri sem birtist í því að staða efnahagsmála er almennt mun betri en spár gerðu ráð fyrir, hallarekstur og skuldsetning hins opinberra minni og staðan á vinnumarkaði er betri en útlit var fyrir framan af faraldrinum. Við munum að það sem við ræddum hvað mest hér í síðustu fjármálaáætlun voru væntar spár um atvinnuleysi sem ekki hafa gengið eftir, sem betur fer. Verkefni næstu ára er svo að ná að nýju jafnvægi í ríkisfjármálunum og byggja upp styrk þeirra á ný til að styðja við bæði félagslegan og efnahagslegan stöðugleika og verja þann árangur sem náðst hefur og búa okkur undir þau áföll sem kunna að dynja á okkur til framtíðar. Þar þurfum við að horfa á félagslega innviði og almannaþjónustu. Við þurfum að horfa á rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar. Það er áhugavert að sjá hvernig þær ákvarðanir sem hafa verið teknar, ég vil leyfa mér að segja allt frá árinu 2012 þegar fyrst var ráðist í sóknaráætlun, í þágu rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina og þær ákvarðanir sem ráðist var í á kjörtímabilinu 2013–2016 þegar lögum um nýsköpunarfyrirtæki var breytt, þau voru fyrst sett 2009, og svo þær ákvarðanir sem við tókum í heimsfaraldri hafa gert það að verkum að þessir geirar hafa svo sannarlega blómstrað.

Áætlunin gerir ráð fyrir því að ríkissjóður verði áfram rekinn með halla sem fer þó minnkandi á tímabili áætlunarinnar, og gert er ráð fyrir því að unnt verði að stöðva hækkun skulda sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en á árinu 2026. Afkomuhorfur ríkissjóðs árið 2022 eru um 30 milljörðum kr. betri en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir. Þær fela í sér mikinn viðsnúning frá uppgjörinu á árinu 2020 og 2021, en afkomubatinn á milli ára er u.þ.b. 100 milljarðar kr. sem má rekja til markvert hærri tekna ríkissjóðs og aftur lægri útgjalda vegna atvinnuleysis ásamt því auðvitað að þörfin fyrir sértækar aðgerðir vegna heimsfaraldurs fjarar út.

Við stöndum hins vegar frammi fyrir nýrri óvissu sem eru áhrif innrásar Rússa í Úkraínu. Hún er auðvitað áhyggjuefni á mörgum sviðum en hefur líka efnahagsleg áhrif og þau áhrif birtast auðvitað fyrst og fremst í hækkandi hrávöru- og olíuverði á heimsmarkaði sem birtist hér í aukinni verðbólgu að hluta.

Hagstjórnarleg markmið þurfa að vera skýr og það skiptir máli, og ég nefndi hér hinn efnahagslega og félagslega stöðugleika því að hvort tveggja er nauðsynlegt til að skapa grundvöll fyrir góðar niðurstöður kjaraviðræðna á vinnumarkaði.

Ég vil nefna sérstaklega þær fjárfestingar sem ráðist var í allt frá árinu 2020 þegar heimsfaraldurinn skall á og síðar var það átak framlengt á árunum 2021–2023. Sum verkefni átaksins ná allt til ársins 2025 og alls er áætlað að fjárfesting í átakinu nemi 119 milljörðum kr. á árunum 2020–2025 sem nær m.a. til uppbyggingar samgöngumannvirkja, til nýbygginga, viðhalds fasteigna, til uppbyggingar í stafrænni umbreytingu og upplýsingatækni en líka, eins og ég nefndi hér áðan, fjölbreytts stuðnings við rannsóknir, nýsköpun, auk verkefna á sviði orkuskipta og grænna lausna. Það skiptir máli að halda áfram að fjárfesta í samfélagsinnviðum. Fjárfesting hins opinbera mun að meðaltali nema 3,6% af landsframleiðslu á tímabilinu og m.a. verður stutt við grænar fjárfestingar í gegnum skattkerfið og hinum aukna stuðningi við rannsóknir og þróun verður við haldið. Þá er gert ráð fyrir töluverðri fjárfestingu í áframhaldandi framkvæmdir. Ég nefni þar sérstaklega byggingu Landspítalans við Hringbraut sem skiptir máli að ljúka.

Ég ætla ekki að fara að telja upp fleiri fjárfestingar enda ekki tími til þess, en mér finnst mikilvægt að geta þess í lokin að auðvitað eru mörg mál í stjórnarsáttmála sem ekki er enn búið að leggja fullt mat á kostnað við. Það bíður okkar að sjálfsögðu á komandi árum. Eins og við þekkjum sem erum vön því að ræða þessa áætlun hér árlega, þó að hún eigi að vera til fimm ára, þá bætast á hverju ári við ný verkefni og önnur hverfa, allt út frá þeim málum sem við ljúkum hér á þinginu. (Forseti hringir.)

Ég vænti þess að hv. þingmenn vilji eitthvað grennslast fyrir um þau en það er mikilvægt að við horfum (Forseti hringir.) til þess að þessi verkefni eiga að sjálfsögðu eftir að koma inn síðar á kjörtímabilinu.