152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég er hrædd um að hæstv. forsætisráðherra hafi misskilið hvaða lagabálk ég er að tala um. Ég er eingöngu að tala um lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. (Forsrh.: Utan vinnumarkaðar.) Utan vinnumarkaðar. Á öllum sviðum samfélagsins. Ég er búin að leita dyrum og dyngjum og hef ekki fundið neinn úrskurð eða neitt mál sem komið hefur upp vegna þessa. Jafnframt kom fram í okkar upplýsingaöflun í allsherjar- og menntamálanefnd að ein af ástæðum þess að ekki hafi reynt á þessi lög, um mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna, sé sú að fólk í þeirri stöðu á gjarnan í ýmiss konar vandræðum með að leita réttar síns. Það eru tungumálaörðugleikar, vanþekking á kerfinu, annað slíkt. Þar kem ég kannski að fjármálaþætti fyrirspurnar minnar sem hæstv. forsætisráðherra saknaði í fyrri spurningu minni. Það varðar hvort til standi að fara í einhvers konar kynningu og fyrirhöfn og leggja einhverja fjármuni í það að gera fólki sem líklegast er til að verða fyrir mismunun, sem mig grunar og ég óttast að sé ansi útbreidd í okkar samfélagi þrátt fyrir margt gott og þrátt fyrir góðan vilja stjórnvalda til að breyta því, kleift að sækja þennan mikilvæga rétt sinn.