152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég misskildi hv. þingmann hvaða lagabálk var vísað til en nefni þó í því samhengi varðandi þennan úrskurð sem ég vitnaði til frá þessu ári að það er dálítið merkilegt hve langan tíma það tók að sækja það mál, þó að það heyrði undir önnur lög. Við sjáum það oft með réttarbætur sem við gerum á Alþingi að það getur tekið langan tíma að fólk láti á það reyna. Stundum er þingið að elta samfélagið. Stundum erum við jafnvel eitthvað aðeins á undan samfélaginu.

Mér finnst þetta áhugavert sem hv. þingmaður nefnir. Ég vil nefna það hér að ný framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum mun koma hér fram fyrir árin 2024–2027 á kjörtímabilinu og hluti af undirbúningi fyrir þá framkvæmdaáætlun er einmitt að meta árangur af þessum lögum sem við höfum verið að setja því að það má segja að á síðasta kjörtímabili hafi verið ráðist í allmiklar endurbætur á lagaumhverfi jafnréttismála, hvað varðar stjórnsýslu jafnréttismála, þessa tvo lagabálka, innan og utan vinnumarkaðar, lög um kynrænt sjálfræði, lög um réttindi intersex barna o.s.frv. Hluti af þessari framkvæmdaáætlun verður að meta hver árangurinn er. Þarf að ráðast til að mynda í það, eins og hv. þingmaður nefnir og mér finnst það nú bara hugmynd sem ég ætla að taka niður og láta skoða, að vekja athygli almennings á rétti sínum? Að einhverju leyti er þetta kannski enn þá framandi hugsun fyrir einhverja og kannski einmitt þá hópa sem síst skyldi, þ.e. hvar hægt er að leita réttar síns. Við getum gert betur í því almennt, held ég, í samfélagi okkar að koma upplýsingum líka á framfæri til t.d. þeirra sem eru af erlendu bergi brotnir, ekki með íslensku að móðurmáli og þurfa að hafa mikið fyrir því. Þannig að mér finnst þetta mikilvæg ábending sem ég tek með mér úr þessari umræðu.