152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Arnari Þór Jónssyni fyrir hans fyrirspurn. Þetta er áhugavert sem hann nefnir hér um greiningu frá Bretlandi. Það er algjörlega rétt að þegar staðið var frammi fyrir því ástandi sem skapaðist hér mjög skyndilega vegna heimsfaraldurs var ákveðið að stíga mjög stór skref í því að beita ríkissjóði til að styðja bæði við almenning og atvinnulíf. Hv. þingmaður er þá væntanlega að velta fyrir sér þeim fjármunum sem runnu sérstaklega til atvinnulífsins því að til almennings runnu ákveðnir þættir eins og barnabótaauki og fleira sem fyrst og fremst var ætlað að koma til móts við og standa undir afkomu fólks. Ég myndi ekkert telja það útilokað. Við erum að vinna úttekt á því hvernig stjórnkerfið brást við faraldrinum. Sú úttekt er í vinnslu og eins skoðun á hinum félagslegu áhrifum. Ég teldi ekkert athugavert við það að skoða þetta.

Hvað varðar almennt það sem hv. þingmaður nefnir hér um fjársvik og mögulega misnotkun í þeim efnum þá er það mín skoðun að við höfum verið að stíga góð skref, til að mynda með þeim breytingum á regluverki sem tengist peningaþvætti og vörnum gegn hryðjuverkum, þeim breytingum sem við gerðum hér á skattamálum, t.d. með tilkomu reglna um þunna eiginfjármögnun. Ég er ekki í nokkrum vafa um að gera má betur þegar kemur að framkvæmdinni. Við erum auðvitað bara með X mikinn mannskap sem stendur sína plikt og er í raun mjög áhugavert að kynna sér starfsemi Skattsins í þeim efnum. Það er mikill árangur sem sú stofnun er að skila í þessum efnum. Ég held hins vegar að full þörf sé á því að vera alltaf á tánum þar og við getum örugglega gert betur. Ef við fjárfestum til að mynda í stofnun eins og Skattinum er ég ekki í nokkrum vafa um að það mun skila sér margfalt til baka.