152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Ef við reynum að bregða einhverri mælistiku á árangur aðgerða þá er það auðvitað merkilegt — og við ræðum hér alltaf um langtímaáætlanir en búum auðvitað við gríðarlegar sveiflur, bæði í heimshagkerfinu en líka í okkar litla hagkerfi — að afkomuhorfur ríkissjóðs í ár eru 30 milljörðum kr. betri en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir að mikið sé vandað til áætlanagerðar. Þetta segir mér að aðgerðirnar sem ráðist var í skiluðu sér. Þennan viðsnúning má í raun og veru rekja til bættra efnahagshorfa, lægri útgjalda vegna atvinnuleysis og hærri tekna ríkissjóðs vegna þess að aðgerðirnar báru árangur. Ef við viljum bregða einhverri mælistiku á það hvort aðgerðirnar hafi virkað sem skyldi þá er þetta ein mælistika til þess. Hún segir okkur að staða íslensks efnahagslífs er miklu betri en við spáðum sjálf. Hún er miklum mun betri en mjög margir aðrir spáðu, get ég alveg sagt ykkur, og vitna þá m.a. í þennan sal því að við eyddum hér gríðarlega miklum tíma í að ræða spár um atvinnuleysi sem ekki gengu eftir, fyrst og fremst vegna þessarar stefnu stjórnvalda í málefnum ríkissjóðs. Þegar við berum þá mælistiku á aðgerðirnar held ég að hún sýni að þar hafi vel tekist til. En um leið tek ég undir með hv. þingmanni, það er mikilvægt að við höfum augun á boltanum þegar við erum að nýta fé almennings, að því sé varið með skynsamlegum hætti og að það sé ekki misnotað með neinum hætti. Ég tel því að fjárfesting í Skattinum skili sér alltaf margfalt til baka.