152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:54]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Öllum er ljóst að ríkissjóði hefur verið beitt nokkuð kröftuglega til að vinna á móti þeim efnahagslegu skakkaföllum sem Covid-19 bar með sér. Það var að mínu mati góð ákvörðun, ákvörðun sem hafði þann tilgang að verja og vernda bæði fyrirtæki og fólkið í landinu og það tókst. Samfélagið er aftur farið á fullt og ég er bjartsýnn, bjartsýnn en raunsær. Raunsær á stöðu ríkissjóðs og raunsær á þá stöðu að enn er verk að vinna á mörgum sviðum.

Það kemur í hlut innviðaráðuneytisins að vinna eins vel og hægt er úr þeim samtals 450 milljörðum kr. sem koma í þess hlut í fjármálaáætlun næstu fimm ára. Eins og áður rennur stærsti hlutinn til samgangna eða um 230 milljarðar. Eftir vel heppnað fjárfestingarátak dragast bein framlög úr ríkissjóði til fjárfestinga nokkuð saman en á móti er gert ráð fyrir verulegum óbeinum framlögum í tengslum við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, samvinnuverkefni og uppbyggingu og fjármögnun jarðganga. Sem dæmi um framkvæmdir á næstu árum sem fjármagnaðar verða að hluta með óbeinum framlögum má nefna Arnarnesveg við Breiðholtsbraut, gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, stokka á Miklubraut og Sæbraut, fyrsta áfanga borgarlínu, nýja Ölfusárbrú, Axarveg og nýja brú yfir Hornafjarðarfljót.

Áfram verður haldið með að styrkja innanlands- og millilandaflug. Til dæmis verður lokið við að reisa nýja millilandaflugstöð á Akureyri á næsta ári og í gegnum Loftbrúna verður haldið áfram að veita afslátt af flugfargjöldum til þeirra sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdir í höfnum verði áfram miklar og á meðal umfangsmestu endurbóta má nefna fyrirhugaðar endurbætur á höfninni í Þorlákshöfn, lengingu Sundabakka á Ísafirði sem og framkvæmdir í Njarðvíkurhöfn og á Sauðárkróki.

Sveitarfélögin okkar hafa ekki frekar en ríkissjóður farið varhluta af Covid-19 faraldrinum. Heildarafkoma þeirra hefur verið neikvæð en gert er ráð fyrir að nokkuð muni draga úr því á tímabili fjármálaáætlunar þannig að undir lok tímabilsins verði afkoman neikvæð um tæplega 8 milljarða eða 0,2% af vergri landsframleiðslu. Staðan er þó betri hjá sveitarfélögum en spár gerðu ráð fyrir sem skýrist einna helst af því að tekjur hafa verið hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá stóð ríkissjóður vörð um framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þegar tekjur drógust saman og tryggði óbreytt framlag úr sjóðnum. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hækki samhliða auknum tekjum og verði í kringum 140 milljarðar kr. á næstu fimm árum.

Sameiningar sveitarfélaga geta stuðlað að öflugri og sjálfbærari sveitarfélögum. Þeim fer ört fækkandi og eru núna 69 en fækkar um fimm að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Ég bind vonir við að áfram verði haldið á þeirri braut og mun gera mitt til að svo megi verða til að styrkja sveitarstjórnarstigið. Áfram verður stutt við byggðamál, m.a. í gegnum byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta en framlög haldast stöðug og verða tæplega 10 milljarðar kr. á næstu fimm árum.

Síðast en ekki síst vil ég nefna skipulags- og húsnæðismál, nýja málaflokka í nýju innviðaráðuneyti. Það fær strax annan fókus að þessir málaflokkar skuli vera undir sama ráðuneyti. Það gefur aukin tækifæri, aukinn slagkraft, að tengja þá við aðra málaflokka ráðuneytisins eins og sveitarstjórnarmál, byggðamál og samgöngumál. Það er spennandi áskorun að takast á við þessa nýju málaflokka. Þeir brenna á okkur landanum, ég veit það, við vitum það öll. Ég segi ykkur það að allar hendur eru á dekki í þessari vinnu, mikil greiningarvinna stendur yfir sem og stefnumótun. Ég mun leggja hér í þinginu fram tillögu til þingsályktunar í húsnæðismálum síðar á árinu sem verður sú fyrsta sinnar tegundar. Í þessari fjármálaáætlun er stigið varlega til jarðar af þeirri einföldu ástæðu að greining á stöðunni og stefnumótun liggur ekki fyrir. Það er þó ljóst að fyrsta skrefið er að fjölga byggingarhæfum lóðum. Verið er að greina stöðuna á því í þessum töluðu orðum, greina á hverju strandar, hvað þarf til. Ég er að horfa til samninga á milli ráðuneytisins og sveitarfélaga um skipulag lóða í takt við mannfjöldaspá og húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna. Ég veit að það er vilji á báða bóga. Sveitarfélögin finna til ábyrgðar og vilja leggja sitt af mörkum fyrir fólkið í landinu. Það þarf víðtæka samvinnu til að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Þegar jafnvægi er náð er lykilatriði að stjórnvöld styðji þá sem helst þurfa á því að halda, hvort heldur sem er með hlutdeildarlánum, félagslegu eignakerfi, húsnæðisbótum eða hverju því sem dugar til að ná markmiðum um velsæld og jafnvægi á húsnæðismarkaði.