152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:20]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þessar spurningar. Mig minnir, þingmaðurinn leiðréttir mig, að þingmaðurinn hafi gagnrýnt það þegar samgönguáætlun kom fram síðast að hún væri ekki loftslagsmarkmiðstengd og þess vegna erum við auðvitað að vinna að nýrri samgönguáætlun sem verður þá búið að tengja betur við loftslagsmarkmiðin og þau verkefni sem þar eru. Við erum auðvitað enn að vinna á gömlu áætluninni hvað það varðar. Ég vil líka segja að við erum á fleiri sviðum að vinna á fullu að þeim loftslagsmarkmiðum. Það eru mjög spennandi hlutir til að mynda að gerast í húsnæðismálunum og skipulagsmálunum sem lúta að loftslagsmarkmiðum sem munu líta ljós á næstu dögum og vikum. Síðan er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að vandinn vex og verður sífellt meira aðkallandi að koma fram með lausnir á loftslagsvandanum. Eins og ég sagði í ræðu minni þá er ég bjartsýnn en raunsær og það getur gilt um loftslagsmarkmiðin líka. Ég hef til að mynda þá trú að við munum sjá í orkuskiptunum í bílunum, þ.e. að það verði sífellt hraðari endurnýjun á því að við fáum nýorkubíla versus gömlu bensín- og dísilbílana. Ég hef líka þá trú að það sem menn töldu að væri mjög langt í, það væri sem sagt langt í að orkuskipti yrðu tæk í flugi, í skipum eða í stærri tækjum, að það sé styttra í það heldur en við héldum áður. Þannig að ég er nokkuð bjartsýnn á að það gerist en til þess þurfum við auðvitað nýtt eldsneyti, þá rafeldsneyti væntanlega. Í mínum huga er ekki spurning, og verður reyndar hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslands, að það framleiðum við hér á Íslandi. Þess vegna vildi ég koma því að. En allt þetta er að gerast mjög hratt og við munum án efa taka þetta samtal upp aftur. Í næstu fjármálaáætlun verða án efa (Forseti hringir.) skýrari leiðbeiningar um það hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum.