152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:43]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið. Ég er að setja þessi mál í samhengi við þá staðreynd sem hæstv. fjármálaráðherra upplýsti okkur um hér fyrr í dag, að um 10% af útflutningstekjum okkar Íslendinga megi rekja til hugverka. Það mætti eflaust framkalla hærri tölu ef öðruvísi reiknikúnstum væri þar beitt. Þannig að auðvitað kemur fleira til en það sem við kölluðum bókmenntir og menningarafurðir. Við eigum hér dálítið óvenjulega og öfluga umgjörð fyrir skapandi greinar. Ég nefni endurgreiðslukerfi, bæði í tónlistarframleiðslu, hljóðritunum og í kvikmyndageiranum. Ég nefni þá löggjöf sem tók gildi 1. janúar 2020 þegar hugverk, „intellectual property“ á ensku, voru lögð að jöfnu við annan eignarrétt á Íslandi, samanber „real property“ eða fasteignir, þ.e. að afnotatekjur af hugverkum bera nú, fyrst þjóða í heiminum hér á Íslandi, 22% fjármagnstekjuskatt í stað 47% tekjuskatts. Þetta eru í rauninni stórtíðindi sem eru smám saman að breiðast út um heiminn. Þetta er í rauninni sóknarfæri. Þetta er verkefni fyrir utanríkisþjónustuna og Íslandsstofu til að kynna þetta. Á bak við þessi tækifæri til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð eru líka hin duldu tækifæri sem felast í landkynningu og vexti í ferðaþjónustu, eins og við þekkjum mætavel á fjölmörgum dæmum. Þess vegna tel ég fulla ástæðu til að gefa hér í og spyr hvort ráðherrann gæti lagt á þetta aukna áherslu á næstu misserum.