152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég nefni aftur að það eru gríðarlega mikil tækifæri fyrir okkur til að sækja þarna fram. Það fyrirkomulag sem hv. þingmaður nefnir sem snýr að endurgreiðslu þegar kemur að hljóðritun, við vorum fyrst í heimi til að smíða það kerfi. Þótt það hafi vissulega farið hægt af stað, eins og kannski eðlilegt er, er það að vaxa. Ég veit til þess að við vorum með kynningu, í sendiráðsbústaðnum í Stokkhólmi að ég tel, þegar kemur að kvikmyndaendurgreiðslum og hljóðritun. Þangað mættu tugir gesta víðs vegar að, bæði til þess að kynna sér og sýna áhuga. Ég er viss um að út úr því fæðast einhver frekari sambönd. Þannig að ég tel að út frá hörðum efnahagslegum staðreyndum, efnahagslegum þáttum, þá eigum við að sækja þarna fram en kannski ekki síður bara til að koma því á framfæri hvers virði það er að eiga öflugt listafólk, eiga sterka menningu, og líka, eins og verður mikilvægara og mikilvægara og við sjáum nú, að hægt sé að tala út frá því hvers virði það er að fá bara að lifa í frjálsu samfélagi. Hvaða áhrif hefur það á menningu og listir að mega búa til ljót listaverk eða segja hluti sem eru misgáfulegir? Hvers virði eru raunverulega listir, listafólk, frjáls hugsun og skapandi sem er andstaðan við eyðileggingarmáttinn sem við horfum framan í núna? Það er ekki bara vegna þess að það er efnahagslega skynsamlegt, það er líka vegna þess að það er manneskjulegt. Það endurspeglar vel hvers konar samfélagi við búum í og viljum búa í og fyrir hvað við viljum standa. Það finnst mér líka fara vel saman við kjarnann í okkar utanríkisstefnu og hvernig Ísland á að tala á alþjóðavettvangi.