152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Í kaflanum um háskólastigið í fjármálaáætluninni er margt ágætt að finna, mjög mörg falleg orð um mikilvæg verkefni og hæstv. ráðherra talaði einmitt talsvert um háskólann sem er líka undirstaða nýsköpunarinnar sem hún lagði svo mikla áherslu á. Þar er m.a. talað um að háskólar og rannsóknastofnanir gegni meginhlutverki í að ná fram áherslum stjórnvalda í gildandi stjórnarsáttmála, ekki einungis í mennta- og vísindamálum heldur einnig til að takast á við samfélagslegar áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir í bættri upplýsingamiðlun, í stafrænni umbyltingu, í aukinni sjálfbærni og í langtímahagvexti byggðum á hugviti. Gott og vel, mikil og góð áform, eins og segir líka: Háskólar og rannsóknastofnanir gegna lykilhlutverki í að ná fram áherslum stjórnvalda.

Og hvernig skyldu nú stjórnvöld fara að því að ná fram þessum áherslum sínum? Jú, í fjármálaáætlun eru nefnilega engar hækkanir á framlögum til háskóla, ekki neinar, þrátt fyrir þetta lykilhlutverk. Helstu breytingar á ramma málefnasviðsins eru út af uppfærðum áætlunum hjá Menntasjóði námsmanna, m.a. vegna framfærslu barna, 3% fjölgunar nemenda og til að tryggja að framfærsla haldist í hendur við þróun verðlags.

Frú forseti. Fjármálaáætlun hverju sinni sýnir stefnu ríkisstjórnarinnar í raun og veru og það fjármagn sem þar er að finna sýnir okkur hvaða alvara fylgir fögrum orðum. Ég spyr því: Telur hæstv. ráðherra að líklegt sé að háskólarnir, sem eru undirstaðan, nái þeim markmiðum sem talað er um í fjármálaáætlun án þess að fá hækkun á framlögum?