152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg örugglega hægt að hagræða alls staðar. Ég er hins vegar ekki jafn bjartsýnn og hæstv. ráðherra, miðað við þær kröfur sem þarf að gera til háskóla á næstu árum, að það verði hægt án þess að leggja nýtt fjármagn í það. Ég minni á að ríkisstjórnin hefur horfið frá markmiði síðustu ríkisstjórnar um að ná meðaltali Norðurlandaþjóðanna. Þessi fjármálaáætlun, þegar kemur að háskólunum, minnir mig örlítið á gamla ævintýrið um naglasúpuna en þegar gestinn bar að garði var súpa kokkuð upp úr engu. En það er annað sem mig langar að velta aðeins fyrir mér. Það er líka talað um að efla greinar sem gera Ísland að sjálfbærari þjóð og í því sambandi eru nefndar matvælagreinar, fiskeldi, veiðar, umhverfisvernd, talað um að styrkja tengingar við atvinnulíf, efla starfsnám og verknám og alþjóðastarf háskóla. Það fer hins vegar miklu minna fyrir því að efla skuli listnám sem hlýtur að þurfa að leika lykilhlutverk í þeim sköpunarkrafti sem á að byggja á á næstunni og greinar þar sem við glímum beinlínis við undirmönnun, og nýlegar skýrslur sýna fram á það, eins og í umönnunarstörfum í heilbrigðiskerfinu og uppeldisgreinum. Það er nánast ekkert talað um það. Ég spyr því einfaldlega hæstv. ráðherra: Þarf ekki líka að leggja áherslu á þessi fög? Ég endurtek spurninguna: Með fullri virðingu fyrir þeirri hagræðingu sem getur alltaf átt sér stað og þarf að eiga sér stað, hvort sem er á heimilinu eða í atvinnulífinu, trúir hæstv. ráðherra því virkilega að án nokkurs nýs fjármagns sé hægt að ráðast í þá brjálæðislega miklu sókn sem svo fallega er lýst í fjármálaáætluninni?