152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:38]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir og tek undir að það eru svo gríðarleg tækifæri til samstarfs háskólanna, til að bjóða upp á fjölbreyttara nám, til að styðja við byggðir landsins, til að tengja háskólana við þekkingarsetur í nýsköpun, Fab Lab-smiðjur, og alveg niður í grunnskólana í samfélögunum. Það er auðvitað það sem við erum að reyna að gera með nýju ráðuneyti.

Samstarfsnet opinberu háskólanna er líka gríðarlega mikilvægt og þar eru mörg tækifæri. Það sem hefur kannski ekki náð fram að ganga og þarf að vinna að eru markmið sem sett voru um sameiginlega umsóknargátt, að það verði greint betur hvort hægt sé að samþætta stoðþjónustu og fleira til að spara fjármuni og verja þeim í eitthvað annað, en auðvitað líka að auka samvinnu. Við sjáum að samvinna skólanna gengur vel, eins og fyrir norðan þar sem samvinna Háskólans í Reykjavík um tölvunarfræðinám við Háskólann á Akureyri er gríðarlega góð og er gott dæmi um hvað samstarf háskólanna getur reynst vel fyrir svæðin til að uppfylla þarfir samfélagsins fyrir menntun. Og það þurfum við líka að sjá og munum vonandi sjá innan tíðar á Austurlandi og á fleiri stöðum þar sem við getum boðið upp á fjölbreyttara nám úti á landi með stuðningi frá öðrum skólum, hvort sem það eru háskólar á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar á landsbyggðinni. Því fylgja nefnilega mikil tækifæri.

Varðandi tengslin við atvinnulífið og annað þá tengist það þessu líka. Þar er fjármögnunarlíkanið tólið sem ráðherrann hefur og er fjallað mest um í fjármálaáætluninni, tólið sem maður getur haft til að hafa hvatningu í líkaninu til að fjölga í greinum þar sem þarfir samfélagsins eru. Þannig hvatar held ég að séu jákvæðir til frambúðar inn í háskólakerfið okkar af því að við vitum alveg hvar kallað er eftir tæknimenntun, við vitum hvar kallað er eftir hjúkrunarmenntun o.s.frv. Þar getum við búið til jákvæða hvata fyrir háskólana sem ég er viss um að þeir eru tilbúnir til að taka á móti.