152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:40]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og tek undir það sem áður kom fram, þ.e. að við vitum hvar við þurfum sérfræðiþekkingu. Ég vil þá nefna eitt sem kemur fram í lögum um Menntasjóð námsmanna. Þar er möguleiki á sérstakri ívilnun gagnvart svæðum sem þurfa á sérfræðiþekkingu að halda. Þetta er í 28. gr. í lögum um Menntasjóð námsmanna. Ef það vantar sérfræðiþekkingu á ákveðnum svæðum þá geta samfélög eða sveitarfélög óskað eftir því að fá þá sérfræðiþekkingu til sín og þá er endurgreiðslu á námslánum seinkað með sérstakri ívilnun. Þetta getur verið rosalega stórt tækifæri fyrir sveitarfélög að nýta þetta, minni byggðarlög sem þurfa á sérfræðiþekkingu að halda, þurfa lækna, þurfa sálfræðinga, talmeinafræðinga, þurfa eitthvað í iðngreinum eða öðru. Það eru gríðarleg tækifæri í þessu. Þetta virðist aftur á móti ekki vera vel nýtt. Veit hæstv. ráðherra hvernig þetta er nýtt? Og ef þetta er ekki vel nýtt, er þá á dagskrá að auglýsa þetta enn frekar og gefa þar af leiðandi minni sveitarfélögum tækifæri til að fá frekari sérfræðiþekkingu til sín?