152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fjarskipti heyra undir hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Fjarskiptamál hafa mikið verið rædd undanfarnar vikur á Alþingi, m.a. í tengslum við frumvarp hæstv. ráðherra, svokallaðan Kóða. Það er jákvætt að það sé meðal markmiða ríkisstjórnarinnar, eins og þau eru tilgreind í fjármálaáætlun, að vinna að ljósleiðaravæðingu dreifbýlis og uppbyggingu háhraðaneta eða 5G. Eins og segir í áætluninni eru það enn u.þ.b. 12.000 heimili á landsvísu sem ekki hafa aðgang að ljósleiðaratengingu. Vonandi getum við klárað að tengja þessi heimili á tímabilinu og vonandi er það fjármagnað. Ég sakna þess að ekki sé fjallað í meira mæli um þá miklu áskorun sem við stöndum frammi fyrir, þ.e. öryggi fjarskipta á vegum og í óbyggðum og fjármögnun þess. Fjarskiptafyrirtækin sjá sér ekki gróðavon þarna og því eru víða svæði þar sem ekki næst símsamband. Þetta er öryggismál og því tel ég að Alþingi og ríkisstjórnin þurfi að beita sér fyrir því að fylla í götin þar sem sambandið vantar. Hvaða aðferð verður lögð til grundvallar skiptir kannski ekki höfuðmáli svo lengi sem hægt er að tryggja fjarskiptaöryggi, og á stundum getur verið um líf og dauða að tefla eins og við höfum orðið vör við. Hvaða leiðir telur hæstv. ráðherra færar til að efla betur fjarskiptaöryggi á þeim svæðum þar sem samband er lélegt í dag eða beinlínis ekki til staðar?