152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:46]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er rétt að fjarskiptafrumvarpið er gríðarlega mikilvægur lykill að alls konar mikilvægri þróun í fjarskiptamálum. Ég bind miklar vonir við að það frumvarp klárist á þessu þingi. Það er fjallað aðeins um háhraðatengingu ljósleiðara og Ísland samtengt, sem er framhald af Ísland ljóstengt, er eitt af forgangsverkefnum mínum í nýju ráðuneyti. Þar er um að ræða mikilvæga uppbyggingu ljósleiðara og að tryggja markmiðin um fjarskiptanet um allt land, hvort sem það er gagnvart þjóðvegakerfinu eða á ferðamannastöðum. Enn frekar er sá möguleiki stjórnvalda styrktur að stuðla að auknu öryggi, hvort sem er á vegum eða utan þeirra, á ferðamannastöðum og öðrum stöðum, með kvöðum eða tækifærum og tólum í nýju fjarskiptafrumvarpi, sem er hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd, til að skilyrða tíðnikvaðir og samþættingu kerfa þannig að ef eitt dettur út taki annað við, að það sé skilyrði á ákveðnum svæðum þar sem öryggi hefur ekki verið nægilega gott. Þarna eru mikil tækifæri til að styrkja öryggi landsmanna á þeim stöðum þar sem fjarskipti hafa ekki verið nægjanlega trygg, til samvinnu þeirra fyrirtækja sem eru á markaðnum, til að grípa hvert annað, styðja við og vinna saman á ákveðnum stöðum. Ráðuneytið einhendir sér í hagkvæma og metnaðarfulla uppbyggingu fjarskiptafyrirtækja um allt land með þessari uppfærslu á lögum en líka á regluverki. Við setjum leikreglurnar en með þeim ákvæðum sem ég var að vísa til eru heimildir til samstarfs og samnýtingar, bæði til að auka öryggi og hagkvæmni úti um allt land.