152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:53]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mig langaði að byrja á að fjalla aðeins um hluta í fjármálaáætluninni sem snýr að nýsköpun. Í henni segir, með leyfi forseta, að stefna skuli að því „að Ísland sé ákjósanlegur starfsvettvangur fyrir erlenda sérfræðinga og fjölskyldur þeirra“. Markmiðið er að fjölga þeim úr um 800 árið 2021 í 1.200 árið 2027. Nú hafa sérfræðingar, sem hafa þegar farið í gegnum þetta ferli og sótt um hér, lýst upplifun sinni af því ferli að sækja um slíkt atvinnuleyfi sem niðurlægjandi, dýrri og ótrúlega flókinni. Þetta flókna kerfi er einnig mjög tímafrekt og er ekki óalgengt að vinnslutími umsókna sé um sex mánuðir. Þau okkar sem hafa reynslu af alþjóðlegum vinnumarkaði vita að sex mánuðir eru heil eilífð og það þarf ansi mikla ást á Íslandi til þess að bíða svo lengi eftir ferli sem annars staðar í heiminum tekur daga eða í mesta lagi eina eða tvær vikur.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvað ráðherra hyggst gera til að auðvelda þetta ferli svo að það sé ekki þannig að fólk hætti við að vilja koma hingað. Það eru ekki bara lýsingar sérfræðinganna sem eru svona, maður hefur heyrt sams konar lýsingar frá frumkvöðlafyrirtækjum og öðrum sem hafa verið að reyna að ráða fólk utan EES-svæðisins. Hvað getum við gert til að laga þetta og hvað hyggst ráðherra gera?