152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:55]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að koma inn á þetta. Mér fannst mjög mikilvægt að um þetta væru settir skýrir mælikvarðar í fjármálaáætlun því að við sjáum varla árangurinn ef við höfum ekki slíka mælikvarða. Það er eitt af forgangsverkefnunum, meðal sex forgangsverkefna í nýju ráðuneyti, að reyna að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga. Þó að það heyri ekki undir löggjöf ráðuneytisins þá er það gríðarlega mikilvægt fyrir framgang málaflokka ráðuneytisins og algerlega ómögulegt að við náum markmiðum okkar, fjöldamörgum markmiðum sem kveðið er á um í fjármálaáætlun, án þess að fjölga erlendum sérfræðingum, hafa kerfið liðlegra, fljótara og opnara. Við höfum einfaldlega verið allt of þröngsýn gagnvart atvinnuleyfum hér á Íslandi. Og það hef ég margoft sagt og áður en ég settist í stól nýsköpunarráðherra að við þurfum að hafa fleiri tækifæri til að fólk geti komið hingað og bætt lífskjör sín og starfað, og ekki bara fyrir það fólk heldur líka vegna okkar af því að við þurfum á því að halda og þessar hugverks- og þekkingargreinar munu ekki stækka án þess. Við erum að greina stöðuna og það er rétt, þetta eru svona þrír til sex mánuðir. Við höfum fundað með fjölmörgum sprotafyrirtækjum, fyrirtækjum sem hafa fengið til sín erlenda sérfræðinga, bæði þeim sem hefur þótt þetta ganga vel og þeim sem hefur þótt þetta ganga illa, og því miður eru þær sögur fleiri. Það er ýmislegt sem spilar inn í það að kerfið er svona hægt, t.d. staðan hjá Útlendingastofnun núna. En við þurfum að gæta okkar á því að slíkir tímar, sem geta alltaf komið upp, tefji það ekki að fólk geti komið hingað og starfað. Við viljum ekki að svoleiðis atriði hafi áhrif. En við þurfum líka að fara yfir skilgreininguna á sérfræðingum því að það eru það t.d. ekki allir og við verðum að vera opnari þar og breyta löggjöfinni. Ég mun kalla félagsmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið í þá vinnu þegar við höfum kortlagt stöðuna og tækifærin til að stytta tímann en líka opna löggjöfina.