152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ef eitthvað er hægt að gera til að aðstoða við að fá þetta áfram þá ligg ég ekki á liði mínu. Mig langar bara rétt að nefna varðandi eitt sem má skoða; nú var talað um að gera þetta líka gott fyrir fjölskyldur sérfræðinganna. Kerfið er þannig núna að makar sérfræðinga fá ekki sjálfkrafa atvinnuleyfi. Þetta er það sem ég kalla 1950-hugsun, að makinn eigi bara að vera heima og elda af því að þú ert sérfræðingurinn. Þetta á ekki heima á 21. öldinni.

Seinni spurning mín tengist niðurgreiðslu á þróunarkostnaði. Á undanförnum árum hefur stuðningur ríkisins, í formi endurgreiðslu vegna þróunar- og rannsóknakostnaðar, hækkað mjög hratt. Árið 2020 var þessi upphæð um 5 milljarðar en hækkaði í 11,7 milljarða í fjárlögum fyrir árið 2022, var 10 milljarðar á síðasta ári. Ef ég les rétt út úr fjármálaáætluninni er reiknað með að í þetta fari um 10 milljarðar á ári út tímabilið. Nú hafa bæði stór og stöndug hugvitsfyrirtæki verið dugleg að nýta sér þetta, rétt eins og smærri nýsköpunarfyrirtæki. Við getum reiknað með því að ef starf hæstv. ráðherra gengur vel verði aukin eftirspurn eftir þessum endurgreiðslum þar sem það verða fleiri nýsköpunarfyrirtæki. Langar mig því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún reikni með því að þurfa að setja auknar takmarkanir á hvað fellur undir endurgreiðsluhæfan kostnað eða hvaða fyrirtæki geti sótt um til að mæta því að minna fjármagn verður til skiptanna vegna þess að nýsköpun er að aukast.