152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:00]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að inni í þessari vinnu er skoðun á stöðu maka og það hafa heyrst sögur; ein sagan gengur nú á samfélagsmiðlum af flottri konu sem kemur frá Bandaríkjunum, er búin að stofna hér fyrirtæki en er vísað úr landi þar sem hún fellur ekki undir þessa skilgreiningu á sérfræðingi og vöntun á störfum. Þetta skilur fólk bara ekki og þetta er nákvæmlega það sem ég er búin að tala um. En þetta er gott dæmi um það sem við þurfum að breyta.

Varðandi rannsóknir og þróun þá er það mikilvægur punktur. Við settum gríðarlega fjárfestingu inn í þennan lið í Covid og við höldum henni áfram, með örlitlum breytingum þó. Frumvarp fjármálaráðherra um áframhaldandi bráðabirgðaákvæði liggur nú fyrir, með örlitlum breytingum þar sem þakið er hækkað, þar sem fjármunirnir eru hækkaðir, eru örlítið lægri en í átakinu í Covid. Ég held að með þessu og þessum milljörðum sem fara í þetta séum við að skapa tækifæri, skapa útflutningstekjur. Við erum að skapa hér verðmæt störf og ýmis tækifæri. En við þurfum að átta okkur á því að þetta eru orðnir gríðarlegir fjármunir. Þess vegna þurfum við að gæta þess að þeir fari á réttan stað, við þurfum að kanna hvort við skoðum umsóknirnar rétt, hvort við setjum peningana á rétta staði. Þess vegna höfum við óskað eftir skoðun OECD, bæði til að bera okkur saman við önnur lönd þar sem við viljum vera framúrskarandi og best á þessu sviði til framtíðar, en líka til að sjá hvar við gætum gert betur, af því að núna er þetta komið yfir 10 milljarða, eins og hv. þingmaður segir, og þá skulum við bara skoða hvaða tekjur koma frá öllum fyrirtækjum árlega í ríkiskassann. Þetta er að verða, og ef ekki þegar orðið, einn sjötti hluti af öllum tekjuskatti sem kemur frá fyrirtækjum sem við skilum til baka í rannsóknir og þróun. Það eru gríðarlegir fjármunir og við þurfum að passa að þeir fari í þessa verðmætasköpun, að styrkja þessa nýju útflutningsgrein. Það ætlum við að gera, við ætlum að nýta þessa fjármuni vel og fáum þá úttekt vonandi í haust.