152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:02]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að hefja mál mitt hér á því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir stóíska ró þegar hún gleymdi blaðinu sínu hér áðan, það var fagmannlega gert. Nýsköpun hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár og útflutningstekjur byggðar á hugverkaiðnaði hafa aukist um 50% frá árinu 2018. Eins og hæstv. ráðherra hefur sjálf sagt þurfum við að byggja hagkerfi okkar á fleiri stoðum og hugvitið er þar okkar stærsta tækifæri. Það hefur verið hreint magnað að fylgjast með þróun mála og sjá framleiðslu íslenskra fyrirtækja, t.d. á wasabi í Fellabæ, spírólínu á Mývatni, þróun líftæknivara Kerecis á Ísafirði eða að fylgjast með Controlant í Reykjavík sem framleiðir vörur sem hafa skipt heimsbyggðina sköpum í baráttu við heimsfaraldurinn. Hugbúnaður er gríðarlega mikilvæg starfsemi. Ég held að það sé ekki hægt að sleppa því að nefna, þó að það sé ekki hægt að nefna öll fyrirtæki og allar greinar, fyrirtæki eins og CCP og önnur sem eru að vinna í tölvuleikjaframleiðslu og þau fyrirtæki sem eru að vinna að hugbúnaði fyrir okkar íslenska atvinnulíf eins og sjávarútveg, landbúnað og fleira. En til þess að grípa það dýrmæta tækifæri sem felst í nýsköpun skiptir fjármögnun miklu máli. Í fjármálaáætlun kemur fram að framlög til málaflokksins aukast um 31,9 milljarða kr. á árunum 2023–2026. Mig langar að spyrja hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hvort hún telji nógu vel í lagt, miðað við mikilvæga aukningu tekna í hagkerfið frá nýsköpunarfyrirtækjum og um hve mikilvæga og vaxandi stoð hagkerfisins er að ræða, sem með árunum getur staðið undir útgjöldum þjóðarbúsins.